Í upphafi skyldi endinn skoða

Þrátt fyrir að tryggingamál séu sjaldan ofarlega í huga hins almenna launþega, er öllum nauðsynlegt að kunna skil á því hvaða ráðstafanir nauðsynlegt er að gera til þess að tryggja sér og sínum framfærsluöryggi.

Við hjá FLM mælum að lágmarki með að félagsmenn okkar:

  • viðhaldi aðild að sjúkrasjóði FLM;
  • greiði í sameignarlífeyrissjóð;
  • greiði í séreignarlífeyrissjóð;
  • sjái til þess að vinnuveitandi kaupi kjarasamningsbundna slysatryggingu launþega með frítímaáhættu innifalinni 

Því til viðbótar bendum við okkar félagsmönnum á að:

  • kaupa sjúkdómatryggingu til viðbótar þeirri, sem innifalin er í sjúkrasjóði FLM;
  • kaupa líftryggingu, ef félagsmaður er með fjölskyldu á framfæri. Væri slík líftrygging til viðbótar þeirri, sem innifalin er í sjúkrasjóði FLM.

Að auki hefur það færst í vöxt að vinnuveitendur kaupi sjúkra- og slysatryggingar vegna yfirstjórnenda, en komi til tímabundinnar eða varanlegrar örorku af völdum alvarlegs slyss eða sjúkdóms, kemur slík tryggingavernd til viðbótar bótum, sem greiðast úr sameignar- og séreignarlífeyrissjóði.

Hlutverk sjúkrasjóðs FLM

Hlutverk sjúkrasjóðs FLM er að veita félagsmönnum afkomubætur í veikinda- og slysatilfellum. FLM brúar það tekjutap, sem verður frá því að veikindarétti launþega lýkur hjá vinnuveitanda (að lágmarki 3 mánuðir) og þar til örorkulífeyrir greiðist frá lífeyrissjóði. Þetta tímabil getur varað í allt að 9 mánuði og jafnvel lengur í einhverjum tilfellum. Á þessu tímabili eru einu tekjur launþega, sem ekki eru í sjúkrasjóði og slasast eða veikjast alvarlega, aðeins um 40.000 kr. á mánuði frá Tryggingastofnun.  

Ef um alvarlegt veikinda- eða slysatilfelli er að ræða og félagsmaður er metinn varanlegur öryrki greiðast bætur úr sameignar- og séreignarlífeyrissjóði (skv. skilmálum hverju sinni) og miðast slíkar bætur við 54% af meðallaunum, ef örorka er metinn 100%. 

Bætur úr sjúkdómatryggingu greiðast óháð því hvort um er að ræða tímabundna eða varanlega örorku, en skilyrði bótagreiðslna er að ákveðinn tilgreindur sjúkdómur sé greindur.

Sjúkrasjóðurinn greiðir einnig dánarbætur úr líftryggingu.

Bent skal á að hver einstaklingur getur haft í gildi margar persónutryggingar, þ.m.t. líf- og sjúkdómatryggingar, hjá mörgum vátryggingafélögum, til viðbótar þeirri tryggingavernd sem innifalin er í sjúkrasjóði FLM.

Til viðbótar framansögðu er vissulega fólgin öryggisventill í eigin sparnaði komi til óvinnufærni af völdum sjúkdóms eða slyss.

FLM ódýr og öruggur kostur

Tekjuöryggi er ein af lykiláherslum FLM. Við bjóðum öflugan sjúkrasjóð með tryggingavernd sem getur skipt sköpum fyrir launþega í ólíkum tegundum ráðninga, ekki síst fyrir giggara. FLM er nútímalegt ódýrt stéttarfélag með lágmarks yfirbyggingu.

Sækja um aðild