Algengar spurningar

Upplýsingar fyrir félagsmenn

Hér má finna helstu upplýsingar er varða félagsmenn í FLM.

Samkvæmt hvaða kjarasamningi á að vátryggja ykkar félagsmenn í slysatryggingu launþega?

Félagsmaður í FLM er vátryggður samkvæmt ákvæðum þess kjarasamnings sem vísað er til í ráðningarsamningi hans. FLM hefur gert kjarasamning við Samtök atvinnulífsins (SA) og því eðlilegt að félagsmenn sem eru launþegar hjá fyrirtækjum innan vébanda SA tilgreini þann kjarasamning í sínum ráðningarsamningi. FLM hefur ennfremur gert kjarasamning við Félag atvinnurekenda (FA) og því eðlilegt að félagsmenn sem eru launþegar hjá fyrirtækjum innan vébanda FA tilgreini þann kjarasamning í sínum ráðningarsamningi.

 

Hefur það áhrif á greiðslu launa- eða dánarbóta eða bóta úr sjúkdómatryggingu ef félagsmaður er þegar með í gildi launatryggingu, líftryggingu eða sjúkdómatryggingu?

Það hefur ekki áhrif á greiðslu launa- eða dánarbóta eða bóta úr sjúkdómatryggingu hjá FLM ef félagsmaður er með launatryggingu, líftryggingu eða sjúkdómatryggingu í gildi annars staðar.

Hvað er afkomuskjól?

Afkomuskjól er vörumerki undir FLM, sem er ætlað að lýsa tryggingavernd sjúkrasjóðs FLM.

Til hverra höfðar FLM fyrst og fremst?

Til sérfræðinga og stjórnenda sem kjósa að standa utan hefðbundinna stéttarfélaga. Aðrir launþegar eru að sjálfsögðu velkomnir í FLM. FLM hentar þeim launþegum mjög vel, er semja sjálfir um sín kaup og kjör.

Eftir að ég gerist félagi í FLM, þarf ég að láta vinnuveitanda vita eða er það eitthvað sem þið sjáið um?

Þegar við höfum móttekið undirritaða inngöngubeiðni/upplýst samþykki munum við staðfesta þátttöku og jafnframt senda tilkynningu til þíns vinnuveitanda. Það er alltaf til bóta ef nýir félagsmenn upplýsa jafnframt sína vinnuveitendur um aðild að FLM.

Hvert er heildarframlag vinnuveitanda í FLM?

Vinnuveitandi greiðir einungis 1,0% af launum í sjúkrasjóð FLM, ekki er um önnur framlög að ræða af hálfu vinnuveitanda.

Hver er árlegur kostnaður við aðild miðað við t.d. kr. 500.000 mánaðarlaun félagsmanna?

Árlegur kostnaður félagsmannsins er einungis kr. 3.000

Þarf að fara fram áhættumat vegna líftryggingar og sjúkdómatryggingar sem innifaldar eru í sjúkrasjóði FLM?

Nei, undirritun á inngöngubeiðni/upplýstu samþykki er það eina sem við gerum kröfu um.

Hvenær tekur félagsaðild gildi?

Félagsaðild tekur gildi kl. 00:00 daginn eftir undirritun á inngöngubeiðni/upplýstu samþykki.

Hvað þarf ég að gera til þess að gerast félagi í FLM?

Það þarf aðeins að undirrita inngöngubeiðni/upplýst samþykki og senda okkur. Eyðublaðið má nálgast hér.

Hvers vegna ætti ég að gerast félagi í FLM?

Sértu ekki meðlimur í stéttarfélagi ættirðu að ganga í FLM. Sjúkrasjóður FLM brúar bilið frá því að veikindarétti launþega lýkur hjá vinnuveitanda (að jafnaði 3 mánuðir) og þar til örorkulífeyrir greiðist frá lífeyrissjóði. Þetta tímabil getur varað í allt að 9 mánuði og jafnvel lengur í einhverjum tilfellum. Á þessu tímabili eru einu tekjur launþega sem ekki eru í sjúkrasjóði og slasast eða veikjast alvarlega aðeins um 40.000 kr. greiðslur á mánuði frá Tryggingastofnun.

Hefðbundin stéttarfélög henta alls ekki öllum en það er öryggismál að hafa góða launavernd ef eitthvað kemur upp á.

Félag lykilmanna er öruggur og hagstæður valkostur fyrir þig, þar færðu líftryggingu, sjúkdómatryggingu, sjúkratryggingu og launavernd fyrir aðeins 0,05% af launum.

Sækja um aðild