Hvað verður um þig og þína ef tekjur lækka?

Við ráðleggjum öllum að huga að sínu framfærsluöryggi í sambandi við langtíma veikindi eða slys. Í þessu samhengi er mikilvægt að það eru sjúkrasjóðir stéttarfélaga sem oft brúa ákveðið bil sem getur myndast eftir að veikindarétti hjá vinnuveitenda lýkur.

Hefur þú leitt hugann að því hvað áhrif langtíma veikindi eða ótímabært fráfall hafa á tekjur heimilisins?

Samkvæmt opinberum tölum eru 2% landsmanna um tvítugt öryrkjar, fjöldi öryrkja í hverjum árgangi er kominn í 5% um fertugt og 12% um sextugt. Ótímabær dauðsföll hjá fólki undir sextugu eru um 260 á ári. Ef menn hugsa þessar tölur út frá bekknum sínum í grunnskóla jafngilda þær því að um 2 af bekkjarfélögunum verði orðnir öryrkjar fyrir sextugt og einn hafi fallið frá.

Allir þurfa að huga að tekjuöryggi

Við ráðleggjum öllum að huga að sínu framfærsluöryggi. Veikindaréttur á íslenskum vinnumarkaði er að mörgu leyti sérstakur. Við höfum langan veikindarétt hjá vinnuveitanda í samanburði við nágrannalöndin. En eftir að þeim veikindarétti lýkur tekur lítið við þar til fólk er komið með örorkumat og getur sótt um örorkubætur. Sjúkrasjóðir stéttarfélaga greiða dagpeninga á þessum millibilstíma.

Einyrkjar oft illa staddir

Einyrkjar þurfa sérstaklega að huga að sínu tekjuöryggi. Mikilvægt er fyrir þá að eiga aðild að sjúkrasjóði. En það er líka mikilvægt að eiga varasjóð til að dekka veikindarétt eða biðtíma þar til greiðslur úr sjúkrasjóði fara að berast. Einyrkjar þurfa líka að gæta að því að reikna sér rétt laun/endurgjald og greiða iðgjald af þeim í lífeyrissjóð til að öðlast betri réttindi örorku- og lífeyrissgreiðslna.

Sjúkrasjóður FLM tryggir tekjuöryggi

Hlutverk sjúkrasjóðs FLM er að veita félagsmönnum afkomubætur í veikinda- og slysatilfellum. Sjúkrasjóður Félags lykilmanna greiðir 80% af launum í allt að 9 mánuði, en einnig dánarbætur og sjúkdómabætur. 

Sækja um aðild