Valdi sjúkdómur vátryggðum félagsmanni varanlegri örorku greiðast bætur á grundvelli þeirrar vátryggingarfjárhæðar sem í gildi var við upphaf sjúkratímabilsins. Örorkubætur greiðast í hlutfalli við metna örorku en engar bætur greiðast ef örorka er metin lægri en 25%.
Fjárhæð örorkubóta úr sjúkratryggingu er háð aldri og launum félagsmanns á hverjum tíma, þó greiðir sjúkdómatryggingin bætur að hámarki 12.500.000 kr., en að lágmarki 1.000.000 kr. Ekki þarf að fara fram sérstakt áhættumat vegna sjúkdómatryggingar sjúkrasjóðsins.
Vátryggðir eru félagsmenn í Félagi lykilmanna, sem uppfylla það skilyrði að hafa verið að fullu vinnufærir síðastliðna 3 mánuði fyrir töku tryggingarinnar. Félagsmenn sem ganga í félagið eftir gildistöku tryggingarinnar teljast vátryggðir hafi þeir verið að fullu vinnufærir síðastliðna 3 mánuði fyrir inngöngu.
Bent skal á að hafi félagsmaður fengið greiddar bætur úr hópsjúkdómatryggingu FLM vegna sama sjúkdóms eða eigi rétt til slíkra bóta skulu bætur úr sjúkratryggingunni lækka sem nemur helmingi af bótum sjúkdómatryggingarinnar.
Vátrygging þessi undanskilur hvers kyns sjúkdóma, slysaafleiðingar eða önnur tilvik, sem einkenni voru komin fram um, áður en félagsmaður gekk inn í vátryggingarsamninginn með félagsaðild að Félagi lykilmanna og félagsmanni var eða mátti vera kunnugt um, hvort sem formleg greining hafi átt sér stað eða ekki.
Við hvetjum félagsmenn til þess að kynna sér vel vátryggingarskilmála sjúkratryggingarinnar sem aðgengilegir eru á heimasíðu FLM www.flm.is.
Upplýsingar um bótafjárhæðir örorkubóta í sjúkratryggingunni má finna í reiknivél á heimasíðu FLM www.flm.is.