Erindi frá morgunfundi Félags lykilmanna

Í morgun stóð Félag lykilmanna fyrir netfundi til að ræða um réttindi fólks á vinnumarkaði.

Í morgun stóð Félag lykilmanna fyrir netfundi til að ræða um réttindi fólks á vinnumarkaði.

Tilefni fundarins var þær breytingar sem eru að verða á vinnumarkaði auk breytinga í samfélaginu okkar, s.s. hækkandi lífaldur, hækkandi eftirlaunaaldur, fjölgun þeirra sem fara á örorku og fleiri þættir.

Fundarstjóri var Herdís Pála Pálsdóttir og svo voru fjórir aðilar með framsögu á fundinum og veltu því fyrir sér hvort stéttarfélög á Íslandi væru að halda í við og laga sig að þessum breytingum og einnig hvort þau væru að einbeita sér nægjanlega vel að því sem er þeirra tilgangur. Megináherslan í umræðunni var á sjúkrasjóði og tryggingar á vinnumarkaði framtíðarinnar.

Minnkum átök og búum okkur undir framtíðina


dr. Árelía Eydís Guðmundsdóttir lagði í erindi sínu mikla áherslu á að aðilar vinnumarkaðarins væru að skoða mögulegar sviðsmyndir fyrir framtíðina, að áætlunargerð væri unnin út frá þeim sviðsmyndum og því hvernig vinnumarkaður er að þróast.

Einnig hvatti hún einstaklinga til að skoða sínar mögulegu sviðsmyndir, hvernig það sér sína framtíð, ekki síst vegna aukins langlífis og að fólk mun almennt ekki geta hætt að vinna 67 ára og haldið sama lifistandard. Einnig hefur það góð áhrif á geðheilbrigði og sköpunargáfu að skoða sín mál með þessum hætti.

Hún telur aðila vinnumarkaðarins standa í of miklum átökum í stað þess að undirbúa framtíðina, sérstaklega þar sem vitað er að framundan eru miklar breytingar á vinnumarkaði. Breytingar á því hvernig fólk vill vinna, aukið langlífi, fleiri kynslóðir á vinnumarkaði í einu og fleira í þeim dúr.

Stéttarfélög á villigötum – og viðhorf ungs fólks til stéttarfélaga


Erna Arnardóttir, framkvæmdastjóri mannauðsmála hjá CCP, deildi sýn mannauðsstjórans og fyrirtækja á stéttarfélög. Hún kom inn á viðhorf ungs fólks til stéttarfélagsaðilar og segir það hvorki skilja né geta samsamað sig með þeirri orðræðu eða átökum sem aðilar vinnumarkaðarins standa í.

Hún telur fólk almennt ekki átta sig á að réttindi fólks á vinnumarkaði séu tilkomin vegna áratuga baráttu þeirra sem á undan okkur hafa gengið né átta sig á mikilvægi sjúkrasjóða og trygginga á vinnumarkaði. Það velji sér helst stéttarfélög út frá hvar það getur fengið úthlutað orlofshúsi til leigu.
Erna fór yfir nokkrar dæmisögur sem sumar sýndu að stéttarfélög eru komin í samkeppni um fólk, þau standi í markaðssetningu til að ná fleira fólki í sín félög, til að auka völd sín og áhrif. Í stað þess ættu þau, að mati Ernu, að einbeita sér meira að félagslegum réttindum og velferð fólks og bjóða góða sjúkrasjóði en einnig að búa sig undir breytta framtíð.

Þetta hefur leitt til þess að Erna telur stéttarfélög vera að grafa sína eigin gröf í stað þess að einbeita sér að því að vera lífskjarafélög og velferðarvakar. Sjúkrasjóðir stéttarfélaga eru algjört þarfaþing og stuðla að afkomuöryggi og félagslegu réttlæti.

Að vinna án fallhlífar - Kerfin þurfa að breytast

Orri Huginn Ágústsson, formaður bandalags sjálfstæðra leikhúsa, talaði um fjölbreytt og flókið starfsumhverfi sjálfstætt starfandi sviðslistafólks.

Þau kerfi sem við eigum, stéttarfélög, sjúkrasjóðir, atvinnuleysistryggingasjóður og slíkt eru oft ekki að grípa sjálfstætt starfandi aðila, fólk í gigg- eða hark-hagkerfinu, nægjanlega vel og opinberir aðilar, sem og aðilar vinnumarkaðarins hafa ekki náð að hjálpa þessum einstaklingum sem skyldi.

Sviðslistir hafa vaxið mjög á síðustu árum. Fólk sem þar starfar er mjög oft háskólamenntað. Það hverfur oft til annarra starfa á miðjum aldri, í leit að meira öryggi og betri réttindum, með tilheyrandi spekileka í greininni og skorti á fyrirmynum fyrir þá sem á eftir koma.

Vinna listafólks er mjög blönduð og ráðningarsamband við vinnuveitendur oft veikt. Listafólk er gjarnan í mörgum hlutastörfum þar sem það er tímabundið ráðið og án uppsagnarfrests, í bland við að starfa sjálfstætt. Auk þess sem listamenn þurfa oft að sækja fjármagn fyrir eigin verkefni og hefur þá ekki tíma eða orku til að berjast fyrir réttindum.

Orri telur að það vanti góð heildarsamtök fyrir listafólk sem hefði stærri hagsmuni að leiðarljósi. Það er ekki gott að starfa í umhverfi þar sem nánast er ekki í boði að vera veikur því fólk er mætt á sýninguna.

Meiri tryggingabætur – minni styrkir


Gunnar Páll Pálsson, formaður stjórnar Félags lykilmanna, rakti tilurð og markmið félagins, en í því eru nú um 1.800 manns. Félagið er þegar komið með kjarasamning við Samtök atvinnulífsins (SA) og Félag atvinnurekenda (FA).

Hann fór yfir muninn á veikindarétti launafólks á Íslandi og í nágrannalöndunum og deildi einnig nokkrum sláandi tölum sem hafa mikil áhrif á sjúkrasjóði og tryggingavernd á íslenskum vinnumarkaði, til dæmis þeim staðreyndum að þegar fólk nær 60 ára aldri eru 2 af hverjum 20 orðnir öryrkjar og 1 er fallinn frá. Það er að verða algengara en áður að fólk falli út af vinnumarkaði, af ýmsum ástæðum, og því mikilvægt að vera vel tryggður.

Gunnar telur að fólk geri sér ekki nægjanlega grein fyrir hvernig réttindi og tryggingar eru á íslenskum vinnumarkaði.

FLM leggur því megin áherslu á að góðan sjúkrasjóð og tryggingabætur en bjóða ekki smærri styrki, eins og heilsustyrki og því um líkt, né reka orlofshús.

Áherslan er á styrk sjúkrasjóðsins, að tryggja alvarlegu tilvikin, og með einfaldleikanum næst skilvirkni og skýr fókus. Hjá FLM getur fólk í veikindum fengið 80% af launum sínum í allt að 9 mánuði, allt að 6 mánuði vegna veikinda barna og einnig eru félagsmenn FLM með líftryggingu, sjúkdómatryggingu og sjúkraörorkutryggingu.

Sækja um aðild