Fréttabréf

Hjá FLM er árið 2020 tileinkað nýsköpun.

Starfsemin

FLM er félag sérfræðinga og stjórnenda. Megin verkefni félagsins hefur verið að byggja upp sjúkrasjóð í þeim tilgangi að tryggja afkomuöryggi félagsmanna í veikindum eða í kjölfar slysa ásamt að veita félagsmönnum líftryggingu og sjúkdómatryggingu. Fjöldi greiðandi félagsmanna er 1.150 hinn 1. maí 2020.

Aukin tryggingavernd sjúkrasjóðs FLM Óbreytt félagsgjald

Frá og með 1. maí 2020 verða þær breytingar á tryggingavernd sjúkrasjóðs FLM, að líftryggingarfjárhæðir hækka og ný trygging, sjúkdómatrygging tekur gildi hjá félagsmönnum. Þrátt fyrir þessa auknu tryggingavernd helst félagsgjaldið óbreytt hjá FLM.

Betri líftrygging hjá FLM

Frá og með 1. maí 2020 hækkar tryggingafjárhæð líftryggingar um 25% vegna hvers félagsmanns. Hámarksfjárhæð 16.300.000 kr. og lágmarksfjárhæð 1.140.000 kr. haldast þó óbreyttar. Neðangreindar myndir sýna dæmi um þessar breytingar, annarsvegar miðað við mánaðarlaun 500.000 kr. og hinsvegar 1.000.000 kr. mánaðarlaun. Nánari upplýsingar á www.flm.is.

Sjúkdómatrygging – ný trygging

Frá og með 1. maí 2020 njóta félagsmenn í FLM tryggingaverndar sjúkdómatryggingar.

Fjárhæð bóta úr sjúkdómatryggingu er háð aldri og launum félagsmanns á hverjum tíma, þó greiðir sjúkdómatryggingin bætur að hámarki 10.000.000 kr., en að lágmarki 700.000 kr. Ekki þarf að fara fram sérstakt áhættumat vegna sjúkdómatryggingar sjúkrasjóðsins.

Vátryggðir eru félagsmenn í Félagi lykilmanna, sem uppfylla það skilyrði að hafa verið að fullu vinnufærir síðastliðna 3 mánuði fyrir töku tryggingarinnar. Félagsmenn sem ganga í félagið eftir gildistöku tryggingarinnar teljast vátryggðir hafi þeir verið að fullu vinnufærir síðastliðna 3 mánuði
fyrir inngöngu.

Vátrygging þessi undanskilur hvers kyns sjúkdóma, slysaafleiðingar eða önnur tilvik, sem einkenni voru komin fram um, áður en félagsmaður gekk inn í vátryggingarsamninginn með félagsaðild að Félagi lykilmanna og félagsmanni var eða mátti vera kunnugt um, hvort sem formleg greining hafi átt sér stað eða ekki.

Sjúkdómatrygging gildir fyrir félagsmann ef hann greinist með einhvern þeirra sjúkdóma, gengst undir einhverja þeirra aðgerða eða verður fyrir einhverju því tilfelli, sem tilgreind eru í skilmálum tryggingarinnar og skipt er upp í flokka sem hér greinir:

  • Krabbamein
  • Hjarta-, æða- og nýrnasjúkdómar
  • Tauga- og hrörnunarsjúkdómar
  • Aðrir vátryggingaratburðir

Ennfremur gildir sjúkdómatryggingin vegna sjúkdóma sem börn félagsmanna á aldrinum 3ja mánaða til 18 ára greinast með í samræmi við skilmála tryggingarinnar.

Neðangreindar myndir sýna dæmi um fjárhæðir í sjúkdómatryggingu, annarsvegar miðað við mánaðarlaun 500.000 kr. og hinsvegar 1.000.000 kr. mánaðarlaun. Nánari upplýsingar á www.flm.is.

Réttur til framhaldstryggingar í líf- og sjúkdómatryggingu.

Frá og með 1. maí 2020 hefur félagsmaður rétt til að halda áfram líftryggingu og sjúkdómatryggingu falli félagsaðild hans niður af öðrum ástæðum en vegna aldurs. Til þess að virkja áframhald líftryggingar og sjúkdómatryggingar þarf félagsmaður að senda Sjóvá sannanlega beiðni þess efnis innan þriggja mánaða frá því að aðild hans að FLM féll niður.

Aldursmörk í tryggingavernd sjúkrasjóðs FLM

Launatrygging:

Launatryggingin fellur úr gildi í lok þess árs sem félagsmaður nær 66 ára aldri. Vátryggingin tekur ekki til félagsmanna yngri en 18 ára. Hámarksaldur við inngöngu í trygginguna er 64 ár.

Líftrygging:

Líftryggingin fellur úr gildi í lok þess árs sem félagsmaður nær 66 ára aldri. Vátryggingin tekur ekki til félagsmanna yngri en 18 ára. Hámarksaldur við inngöngu í vátrygginguna er 64 ára aldur.

Sjúkdómatrygging:

Sjúkdómatryggingin fellur úr gildi þegar félagsmaður verður 60 ára (miðast við afmælisdag). Vátryggingin tekur ekki til félagsmanna yngri en 18 ára. Sjúkdómavernd barna félagsmanna gildir aðeins fyrir börn á aldrinum 3ja mánaða til 18 ára.

Kjarasvið FLM – Réttindi á atvinnuleysisbótum eða í fæðingarorlofi

Félag lykilmanna tryggir réttindi þeirra félagsmanna sem fara á atvinnuleysisbætur eða í fæðingarorlof, þannig að FLM leggur til 1% sjúkrasjóðsgjald í samræmi við greitt félagsgjald af greiðslum frá Atvinnuleysistryggingasjóði eða frá Fæðingarorlofssjóði. Samkvæmt skilmálum sjúkrasjóðs FLM miðast greiðslur úr honum við 80% af meðal mánaðarlaunum félagsmanns síðustu 12 mánuði fyrir tjónsatburð, hvort sem það eru laun eða bætur vegna atvinnuleysis eða fæðingarorlofs.

Kjarasvið FLM – Kröfulýsing vegna gjaldþrots vinnuveitanda

Félagsmenn FLM geta leitað til félagsins varðandi aðstoð við kröfulýsingu vegna gjaldþrots vinnuveitanda. Fyrir þá sem þess óska munum við lýsa inn kröfum í þrotabúið og til Ábyrgðasjóðs
launa. Til þess að FLM geti tekið slík mál til skoðunar þarf að senda tölvupóst á kjarasvid@flm.is með eftirfarandi upplýsingum:

  • Nafn og kennitala félagsmanns, starfsheiti, farsímanúmer og tölvupóstfang
  • Nafn og kennitala vinnuveitanda og hvenær félagsmaður hóf þar störf
  • Afrit af ráðningarsamningi, síðustu 6 launaseðlum og aðrar upplýsingar sem skipta máli við útreikning á kröfu s.s. ónýtt orlof eða önnur hlunnindi sem ekki eru tilgreind í ráðningarsamningi.
  • Hvort félagsmaður hafi verið í stjórn fyrirtækisins, hluthafi eða framkvæmdastjóri
  • Hvort félagsmaður er nákominn forsvarsmönnum fyrirtækisins

Bent skal á að vegna hins lága félagsgjalds hjá FLM takmarkast árlegur stuðningur FLM við hvern og einn félagsmann við allt að 3 klst. vinnu lögfræðings. Verði óskað eftir frekari stuðningi við áframhald máls þarf að leggja það fyrir stjórn FLM.

Kjarasvið FLM – Ágreiningur við vinnuveitanda

Félagsmenn FLM geta leitað til félagsins vegna mála er varða ágreining við vinnuveitanda.
Til þess að FLM geti tekið slík mál til skoðunar þarf að senda okkur tölvupóst á kjarasvid@flm.is með greinargóðri lýsingu á málsatvikum.

Bent skal á að vegna hins lága félagsgjalds hjá FLM takmarkast árlegur stuðningur FLM við hvern og einn félagsmann við allt að 3 klst. vinnu sérfræðings. Verði óskað eftir frekari stuðningi við áframhald máls þarf að leggja það fyrir stjórn FLM.

Útgreiðsla bóta hjá FLM

Nokkur reynsla er nú komin á tryggingavernd sjúkrasjóðs FLM. Á árinu 2018 voru greiddar bætur vegna sex tilvika og á árinu 2019 vegna 4 tilvika. Gera má ráð fyrir að fjöldi tilvika muni aukast eftir því sem fjöldi félagsmanna vex.

Kjarasamningur milli FA og FLM

Við minnum á að í september 2018 var gerður kjarasamningur milli Félags atvinnurekenda (FA) og Félags lykilmanna (FLM). Um er að ræða fyrsta kjarasamninginn, sem FLM gerir við samtök vinnuveitenda. Samningur FLM og FA er um margt sambærilegur við gildandi samning FA og Félags lyfjafræðinga að því leyti að hann er ekki gerður til ákveðins tíma og inniheldur ekki sérstakan launalið, heldur er gengið út frá því að félagsmenn FLM séu stjórnendur og sérfræðingar sem semja á einstaklingsgrundvelli um markaðslaun. Samningurinn kveður fyrst og fremst á um ýmis réttindamál á borð við ráðningarsamninga, starfsmannaviðtöl, orlof, veikindarétt, tryggingar og fleira slíkt.

Nýr starfsmaður FLM

Friðgerður Ebba Sturludóttir hóf störf hjá FLM í byrjun febrúar s.l. Ebba er viðurkenndur bókari og með stúdentspróf frá Samvinnuskólanum að Bifröst. Á undanförnum árum hefur Ebba starfað við skrifstofustjórnun og bókhald.

Innleiðing á Jóakim

Á síðustu mánuðum höfum við unnið að innleiðingu á félaga- og iðgjaldakerfinu Jóakim með dyggum stuðningi starfsfólks Init. Okkur er ánægja að greina frá því að innleiðingu kerfisins er nú lokið og mun það styðja við öran vöxt FLM.

Ný heimasíða FLM

Við höfum opnað nýja heimasíðu FLM í samstarfi við Hugsmiðjuna og hvetjum ykkur til að kynna ykkur efni hennar.Að endingu viljum við hvetja félagsmenn til þess að benda vinum og vandamönnum á kosti þess að gerast aðilar að FLM.

Líftrygging, sjúkdómatrygging og launavernd
í 9 mánuði fyrir aðeins kr. 3.900 á ári miðað við meðallaun.

Sækja um aðild