Fréttabréf

Starfsemin 

FLM er félag sérfræðinga og stjórnenda. Megin verkefni félagsins hefur verið að byggja upp sjúkrasjóð í þeim tilgangi að tryggja afkomuöryggi félagsmanna í veikindum eða í kjölfar slysa ásamt að veita félagsmönnum líftryggingu og sjúkdómatryggingu. Fjöldi greiðandi félagsmanna er 1.550 hinn 1. mars 2022. 

Aukin tryggingavernd sjúkrasjóðs FLM – Óbreytt félagsgjald

Frá og með 1. apríl 2022 verða þær breytingar á tryggingavernd sjúkrasjóðs FLM, að ný trygging, sjúkratrygging tekur gildi hjá félagsmönnum. Þrátt fyrir þessa auknu tryggingavernd helst félagsgjaldið óbreytt hjá FLM.

Aðrar vátryggingar sjúkrasjóðs FLM haldast óbreyttar, en þær eru:

  • Launatrygging
  • Líftrygging
  • Sjúkdómatrygging

 Sjúkratrygging – ný trygging 

Frá og með 1. apríl 2022 njóta félagsmenn í FLM tryggingaverndar sjúkratryggingar. 

Valdi sjúkdómur vátryggðum félagsmanni varanlegri örorku greiðast bætur á grundvelli þeirrar vátryggingarfjárhæðar sem í gildi var við upphaf sjúkratímabilsins. Örorkubætur greiðast í hlutfalli við metna örorku en engar bætur greiðast ef örorka er metin lægri en 25%. 

Fjárhæð örorkubóta úr sjúkratryggingu er háð aldri og launum félagsmanns á hverjum tíma, þó greiðir sjúkdómatryggingin bætur að hámarki 12.500.000 kr., en að lágmarki 1.000.000 kr. Ekki þarf að fara fram sérstakt áhættumat vegna sjúkdómatryggingar sjúkrasjóðsins. 

Vátryggðir eru félagsmenn í Félagi lykilmanna, sem uppfylla það skilyrði að hafa verið að fullu vinnufærir síðastliðna 3 mánuði fyrir töku tryggingarinnar. Félagsmenn sem ganga í félagið eftir gildistöku tryggingarinnar teljast vátryggðir hafi þeir verið að fullu vinnufærir síðastliðna 3 mánuði fyrir inngöngu. 

Bent skal á að hafi félagsmaður fengið greiddar bætur úr hópsjúkdómatryggingu FLM vegna sama sjúkdóms eða eigi rétt til slíkra bóta skulu bætur úr sjúkratryggingunni lækka sem nemur helmingi af bótum sjúkdómatryggingarinnar. 

Vátrygging þessi undanskilur hvers kyns sjúkdóma, slysaafleiðingar eða önnur tilvik, sem einkenni voru komin fram um, áður en félagsmaður gekk inn í vátryggingarsamninginn með félagsaðild að Félagi lykilmanna og félagsmanni var eða mátti vera kunnugt um, hvort sem formleg greining hafi átt sér stað eða ekki. 

Við hvetjum félagsmenn til þess að kynna sér vel vátryggingarskilmála sjúkratryggingarinnar sem aðgengilegir eru á heimasíðu FLM www.flm.is

Upplýsingar um bótafjárhæðir örorkubóta í sjúkratryggingunni má finna í reiknivél á heimasíðu FLM www.flm.is

Kjarasamningur milli FLM og SA 

Við minnum á að í september 2021 var gerður kjarasamningur milli Félags lykilmanna (FLM) og Samtaka atvinnulífsins (SA). Um er að ræða fyrsta kjarasamninginn sem FLM og SA gera sín á milli og er hann gerður í ljósi mikillar fjölgunar sérfræðinga og stjórnenda sem kosið hafa að eiga aðild að FLM. Kjarasamningurinn nær til sérfræðinga og stjórnenda sem aðild eiga að FLM og samið hafa í ráðningarsamningi við sinn atvinnurekanda um að kjarasamningurinn verði lagður til grundvallar ráðningarsambandi aðila. Samningurinn er áþekkur kjarasamningum sem SA hafa gert við stéttarfélög háskólamanna og byggir á þeirri meginreglu að sérfræðingar og stjórnendur semja persónubundið um laun sín og önnur starfskjör. 

Útgreiðsla bóta hjá FLM 

Nokkur reynsla er nú komin á tryggingavernd sjúkrasjóðs FLM. Á árinu 2020 voru greiddar bætur vegna fimm tilvika og á árinu 2021 vegna tíu tilvika. Gera má ráð fyrir að fjöldi tilvika muni aukast eftir því sem fjöldi félagsmanna vex. 

Breyting á vátryggingaskilmálum sjúkrasjóðs FLM 

Frá og með 1. apríl 2022 taka gildi eftirfarandi breytingar á vátryggingaskilmálum sjúkrasjóðs FLM. 

Líftrygging:

  • Undanþáguákvæði 1. mgr. 3. gr. skilmálanna takmarkast nú við fyrstu 48 mánuðina frá upphafi hópaðildar félagsmanns. Í eldri skilmálum var engin takmörkun og því er hér um að ræða útvíkkun til hagsbóta fyrir félagsmenn FLM. 
  • 5. gr. skilmálanna (Sérákvæði um vátryggingarfjárhæð) kemur í stað ákvæðis í 4. gr. um ákvörðun líftryggingafjárhæðarinnar. 
  • Við hvetjum félagsmenn til þess að kynna sér vel vátryggingarskilmála líftryggingarinnar sem aðgengilegir eru á heimasíðu FLM www.flm.is

Sjúkdómatrygging: 

  • Undanþáguákvæði 7. gr. skilmálanna takmarkast nú við fyrstu 48 mánuðina frá upphafi hópaðildar félagsmanns. Í eldri skilmálum var engin takmörkun og því er hér um að ræða útvíkkun til hagsbóta fyrir félagsmenn FLM. 
  • 10. gr. skilmálanna (Sérákvæði um vátryggingarfjárhæð) kemur í stað ákvæðis í 8. gr. um ákvörðun vátryggingafjárhæðarinnar. 
  • Við hvetjum félagsmenn til þess að kynna sér vel vátryggingarskilmála sjúkdómatryggingarinnar sem aðgengilegir eru á heimasíðu FLM www.flm.is

Aldursmörk í tryggingavernd sjúkrasjóðs FLM 

Aldursmörk í tryggingavernd sjúkrasjóðs FLM eru sem hér greinir. 

Launatrygging: 

Launatryggingin fellur úr gildi í lok þess árs sem félagsmaður nær 66 ára aldri. Vátryggingin tekur ekki til félagsmanna yngri en 18 ára. Hámarksaldur við inngöngu í vátrygginguna er 64 ár. 

Líftrygging: 

Líftryggingin fellur úr gildi í lok þess árs sem félagsmaður nær 66 ára aldri. Vátryggingin tekur ekki til félagsmanna yngri en 18 ára. Hámarksaldur við inngöngu í vátrygginguna er 64 ár. 

Sjúkdómatrygging: 

Sjúkdómatryggingin fellur úr gildi þegar félagsmaður verður 60 ára (miðast við afmælisdag). Vátryggingin tekur ekki til félagsmanna yngri en 18 ára. Sjúkdómavernd barna félagsmanna gildir aðeins fyrir börn á aldrinum 3ja mánaða til 18 ára. 

Sjúkratrygging: 

Sjúkratryggingin fellur úr gildi þegar félagsmaður verður 60 ára (miðast við afmælisdag). 


Að endingu viljum við hvetja félagsmenn til þess að benda vinum og vandamönnum á kosti þess að ganga í FLM.
 

Sækja um aðild