Fréttabréf

Gott ár hjá FLM

Árið 2020 var einstaklega hagfellt fyrir FLM. Á árinu var tryggingavernd sjúkrasjóðsins bætt verulega með tilkomu nýrrar sjúkdómatryggingar og hækkunar bótafjárhæða í líftryggingunni. Þjónusta kjarasviðs FLM styrktist á árinu með auknum stuðningi við félagsmenn og nýrri heimasíðu FLM var hleypt af stokkunum. Fjöldi greiðandi félagsmanna var 1.215 hinn 1. desember 2020 og telst FLM vera meðalstórt stéttarfélag á íslenskan mælikvarða.

Betri sjúkdómatrygging hjá FLM Óbreytt félagsgjald

Frá og með 1. janúar 2021 taka gildi eftirtaldar breytingar á sjúkdómatryggingu félagsmanna FLM. Þrátt fyrir þessa auknu tryggingavernd helst félagsgjaldið óbreytt hjá FLM.

  • Endurvakning tryggingar: Fyrir breytingu féll sjúkdómatryggingin niður við tjón, en þriggja mánaða biðtími leið áður en hún varð virk að nýju gagnvart þeim 3 bótaflokkum sem eftir stóðu. Eftir breytingu fellur sjúkdómatryggingaverndin ekki lengur niður heldur einungis sá bótaflokkur sem greitt var úr og sjúkdómatryggingin gildir áfram án biðtíma vegna annarra sjúkdóma en greitt var úr.
  • Aldursmörk í sjúkdómatryggingu barna: Aldursmörk voru tvískipt, sumir sjúkdómar voru bótaskyldir frá 3ja mánaða aldri, aðrir frá tveggja ára. Nú eru allir tilgreindir sjúkdómar bótaskyldir frá 3ja mánaða aldri.
  • Alvarlegir höfuðáverkar barna: Sérstök skilgreining vegna barna hefur verið felld niður – Hér eftir gildir sama skilgreining vegna höfuðáverka fyrir alla vátryggða, bæði börn og fullorðna.
  • Breyting á skilgreiningu parkinsonssjúkdóms: Skilgreiningin hefur verið einfölduð og tekin út nokkur skilyrði um einkenni.

Tímamóta sigur í Landsrétti

Félagsmaður FLM sem var stjórnandi hjá WOW vann mál fyrir Landsrétti þar sem launakrafa hans er viðurkennd sem forgangskrafa í þrotabúið og þá eftir atvikum í Ábyrgðarsjóð launa.

Skiptastjórar búsins höfðu hafnað kröfunni á þeim forsendum að hann sem stjórnandi og einn af yfirmönnum ætti ekki rétt til þess að krafa hans væri viðurkennd sem forgangskrafa. Deilan snerist aðallega um hvort hann hafi stýrt daglegum rekstri félagsins en hann hafði prókúru fyrir félagið ásamt eiganda. Dómurinn taldi að ekki hafi verið sýnt fram á þrátt fyrir starfstitil að hann hafi haft valdheimildir til að hafa áhrif á þær ákvarðandi sem teknar voru innan félagsins. Krafa hans var því viðurkennd sem forgangskrafa. Dómnum hefur verið áfrýjað til hæstaréttar, sem hefur fallist á að taka það fyrir.

Reiknivél á heimasíðu FLM

Útbúin hefur verið reiknivél á heimasíðu FLM, sem veitir upplýsingar um mögulegar bætur úr sjúkrasjóði FLM, þ.e. bótafjárhæðir í launatryggingu, líftryggingu og sjúkdómatryggingu miðað við gefnar forsendur um aldur og laun.



Að endingu viljum við hvetja félagsmenn til þess að benda samstarfsfélögum, vinum og vandamönnum á kosti þess að gerast aðilar að FLM.

Sækja um aðild